Menu

Tri.is Kópavogsþríþraut 2013 lokið

Þríkó hélt fyrsta þríþrautarmót ársins í Kópavogi í dag.
Fjöldi skráðra keppenda var 108 og 95 skiluðu sér í mark. Þetta er svipaður fjöldi og keppti í fyrra sem var þáttökumet í þríþraut hér á landi þegar 101 skilaði sér í mark. Þrautin heppnaðist vel og var veður einsog best verður á kosið.

Margir af bestu þríþrautarmönnum landsins tóku þátt og var mikið fjör á skiptisvæðinu því að þrautin er stutt og skiptingarnar geta haft töluverð áhrif á heildartímann.

Fyrstur í karlaflokki var Hákon Hrafn Sigurðsson á tímanum 36:48 á eftir honum kom Rúnar Örn Ágústsson á 37:30 og síðan Grétar Snorrason á 37:42. Fyrst kvenna var Birna Björnsdóttir á 40:05 og næstu tvær konur voru Alma María Rögnvaldsdóttir á 43:38 og síðan Ebba Særún Brynjarsdóttir á 43:58. Tri.is var aðalstyrktaraðili keppninnar og voru vegleg verðlaun veitt í aldursflokkum og fyrir bestu sund, hjóla-og hlaupatímana.

Úrslitin má finna hér ásamt úrslitum fyrri ára.

Á eftir aðalþrautinni, eða kl. 13:00 var svo haldin fjölskyldu og barnaþraut. Þá var keppt í helmingi styttri vegalengdum eða sund 200 metrar, hjól 5,2 km og hlaup 1,4 km. Bæði gátu fjölskyldur tekið sig saman í þriggja manna liðum þar sem einn synti, einn hjólaði og einn hljóp og voru ýmis fjölskyldumynstur en tvö af  liðunum innihéldu þrjá ættliði sem kepptu saman. Einnig voru ungmenni á aldrinum 11-16 ára sem kláruðu alla þrautina. Vegleg verðlaun voru veitt til allra liða og einstaklinga.

Úrslitin úr fjölskylduþrautinni birtast von bráðar á úrslitasvæðinu.

Þríkó þakkar öllum keppendum, starfsmönnum, styrktaraðilum, áhorfendum  og bæjaryfirvöldum fyrir þeirra þátt í að gera þennan atburð af því sem hann varð. Vonum að við sjáum sem flesta keppendur að ári og minnum alla á Firmakeppni Íslands sem haldin verður á okkar vegum í byrjun september. Um að gera að fá vinnufélagana til að prófa þríþrautina og byrja að undirbúa sig.

Styrktaraðilar keppninnar voru:
Tri.is sem var aðalstyrktaraðili, Triceland, Soccerade, Ecco umboðið, Scanco, Hreysti, Intersport, Aquasport, Sportvörur, Málning, Kökuhornið, Ath.is, Grand hótel og Sundlaug Kópavogs 

back to top