Menu

Kona 09:24:52

 

Ég heyrði í Rúnari núna stuttu eftir heimsmeistaramótið í Ironman á Havaí. Ég fékk að spyrja hann aðeins útí lífið og tilveruna í kringum þennan mikla árangur sem hann hefur náð í þríþraut á seinustu 5 árum.

14646739_10154786595389095_981441065_o

Hver er Rúnar Örn Ágústsson?

31 árs verkfræðingur sem ólst upp í Vesturbænum en býr í Kópavogi í dag.

Getur þú rakið íþróttaferilinn í stuttu máli?

Æfði skíði þar til ég var 12 ára og færði mig þá yfir í fótbolta og æfði þangað til ég var 18 ára. Eftir það tóku við 6 ár þar sem ég stundaði lyftingar og almenna líkamsrækt en útfrá því uppgötvaði ég hlaupin. Frá 2009 æfði ég hlaup skipulega og það var svo ekki fyrr en haustið 2011 að ég byrjaði að æfa þríþraut.

Nú átt þú Íslandsmetið í heilum Járnmanni á tímanum 08:43:31 og besta tíma Íslendings í heimsmeistaramótinu á Havaí í heilum Járnmanni eða 09:24:52. Hvor tilfinningin var sætari?

Mjög ólíkar og sætar á sinn hátt en fyrir mér eru þessar keppnir næstum ein því ég nálgaðist Köben alltaf sem hálfleik í þessu ferli og það er það stutt á milli að þær renna soldið saman þar sem ég var farinn að hugsa um undirbúning fyrir Kona áður en ég kláraði Köben.

14053843_10154561702419558_850651969345347447_o(Mynd frá Ironman í Kaupmannahöfn)

 

Getur þú farið með okkur í gegnum brautina í Kona á Havaí. Hvernig þér leið í sundinu, hjólinu og hlaupinu?
Sundið: Það er mikið kraðak í sundinu og það tók ca. 2km að slíta þetta í sundur svo maður gat farið að synda á sínu efforti svo ég tel mig eiga mikið inni í sundinu í Kona með því að staðsetja mig betur og vera ákveðnari í startinu. Mér leið vel allan tíman og eftir að hafa prófað bæði rolling start og mass start þá er ég meira fyrir mass start.

14697350_10154786595429095_662409134_o

Hjól: Það er sama sagan og með sundið að það tók langan tíma að slíta allt í sundur svo hægt var að fara að fylgja sínu plani en hér kom sér vel að vera sterkur á hjólinu og var ég að taka framúr í gegnum allt hjólið. Mér leið vel en það er mikilvægt að geta höndlað það að geta keyrt hluta af leiðinni í neðri mörkum HIM efforts til að hámarka hraða, halda sér inní keppninni og lágmarka líkur á að fá dæmt á sig víti.

14646676_10154786595419095_254910848_o

Hlaupið: Hlaupið er mjög skemmtileg leið og skiptist í fjóra parta í mínum huga. Fyrstu ca. 16 km eru inní Kona og fara mestmegnis fram og til baka á Alii Drive og svo upp Palani. Eftir það tekur við ca. 8 km á Queen K Highway og þaðan kemur frægi kaflinn í the Energy Lab og svo er sama leið til baka á Queen K og svo niður Palani niður á Alii Drive og þaðan í mark. Hvernig manni líður í Ironman hlaupi er erfitt að lýsa en eitt er víst að hlaupið er alltaf erfitt en líðanin í hlaupinu er ástæðan fyrir því að ég er ansi hrifinn af þessari vegalengd.

14699589_10154786595414095_874894035_o

Hvernig undirbjóst þú þig fyrir þessa keppni, andlega og líkamlega?

Ég tók eina viku í recovery eftir Köben en eftir það fór ég strax á fullt og setti upp plan þar sem ég fór strax í fyrstu viku uppí ca. 85% af magni en intensity var lítið á hjóli og ekkert á hlaupi svo í vikunni eftir það var ég kominn í 100% magn (ca.20-22 klst) og intensity (1 tempó hlaup og 2 interval æfingar á hjólinu). Andlega var minna mál því ég held að ómeðvitað hef ég verið að bíða eftir að fara í þessa keppni síðan ég byrjaði að fylgjast með henni 2007.

14678125_10154786595439095_1442644253_o

Nú er nýlega búið að stækka í fjölskyldunni. Hvernig gekk að raða saman æfingum og fjölskyldulífinu fyrir bæði keppnina í Danmörku og svo nánast strax á eftir í Havaí?

Það er púsluspil en stutta svarið er að Anna Jóna er óendanlega skilningsrík og erum við saman í þessu. Samhliða því er ég með sveigjanlegan vinnutíma hjá Mannvit og hef ég nýtt það vel til að aðlaga vinnu að æfingum svo ég geti brotið æfingar upp og fengið recovery á milli þeirra.

Flestir sem þekkja eitthvað til þín vita að þetta er allt að gerast einu ári á eftir áætlun. Í raun átti þetta að gerast sumarið/haustið 2015. En þú varðst fyrir þó nokkru óláni sem setti strik í reikninginn það sumar. Getur þú sagt okkur aðeins frá því?

Ég held að þetta sé með verstu afmælisdögum sem ég hef heyrt um en þetta var þannig að ég var búinn að vera heima að njóta dagsins og að horfa á Tour de France og svo þegar dagleið dagsins var búin ákvað ég að nýta góða veðrið og hjóla út í ísbúð. Það endar þannig að hlaupið er fyrir mig þegar ég hjóla eftir götunni og flýg fram fyrir mig og viðbeinsbrotna. Var frá æfingum í 3 mánuði en það kom mér á óvart hvað formið kom hratt til baka.

Telur þú að tímarnir og eða frammistaðan þín hefði verið betri ef allt hefði gengið eftir 2015. Að þitt líkamlega form sem og það andlega hafi verið betra eða var þetta eitthvað sem átti að gerast og að formið hafi verið betra nú og hugsunin jafnvel skýrari en áður?

Það er ómögulegt að segja og til að loka þessum kafla, sem tók sinn tíma, hef ég ekkert verið að velta mér upp úr ef og bara horft fram á veginn og litið á þetta sem tækifæri til að betrum bæta það sem mér fannst klikka í undirbúninginum 2015.

Hvert er næsta skrefið. Hvað tekur við núna?

Ég er með nokkur mjög háleit markmið í sigtinu en það er ekki búið að negla neitt niður en ég er að plana næstu tvö ár og mun þetta skýrast á næstunni.

Þríþrautin er ört vaxandi á Íslandi. Eru einhver ráð að velgengni og eða almenn viska sem þú getur gefið nýliðum og áhugasömum um íþróttina sem loka orð?

Finna sér þríþrautarfélag og/eða þjálfara til að fá leiðbeiningar og leiðsögn hvernig skal æfa og keppa. Vera óhrædd/ur við að keppa og njóta þess. Einnig þarf alls ekki allar græjurnar til að taka þátt í þríþraut. Einnig vil ég benda á að þríþraut er meira en Ironman og fólk ætti að njóta þess að æfa og keppa í styttri þríþrautum.

Árni Einarsson 14.10.2016

 

back to top