Rúnar Örn Ágústsson á heimsmeistaramótinu í þríþraut
- font size decrease font size increase font size
Rúnar Örn Ágústsson lauk um helgina keppni á heimsmeistaramótinu í Kona Hawaí á tímanum 9.24.52 klst. sem er besti árangur sem Íslendingur hefur náð í þeirri keppni. Hann varð í 18 sæti í sínum aldursflokki. Þríkó óskar Rúnari til hamingju með árangurinn. Vonandi fáum við að heyra nánari keppnissögu en hér kemur brot úr viðtali hans við MBL - netfréttir (10/10 2016):
Næringarplanið klikkaði
Rúnar Örn er sáttur við árangurinn og hann naut þess að taka þátt. Það sem „klikkaði“ hjá honum var næringarplanið en á keppnisdaginn var bæði mjög heitt og rakt. „Vökvatapið var mun meira en ég hafði áætlað. Ég hefði þurft að drekka meira og taka meira af steinefnum,“ segir Rúnar Örn Ágústsson. Þetta kom ekki í ljós fyrr en í síðustu greininni, hlaupinu. En þá var orðið of seint að vinna vökvatapið upp. Eftir keppnina missti hann 11% af líkamsþyngd sinni.
Á heimsmeistaramótinu höfðu einungis þátttökurétt þeir sem höfðu náð bestu tímunum yfir árið í Járnkarli um allan heim og keppni því hörð. Til að átta sig á styrkleikanum á mótinu var Rúnar Örn til dæmis nánast fremstur allan tímann í Járnkarlinum í Kaupmannahöfn. Annað var upp á teningnum í þessari keppni. Hann viðurkennir að það hafi tekið á að finna aðra keppendur fara fram úr sér því keppnisskapið er ekki langt undan hjá Rúnari Erni. „Ég hélt ég hefði verið búinn að undirbúa mig undir það. Fyrstu kílómetrana í hlaupinu þurfti ég að endurstilla mig og sætta mig við að það voru nokkrir sprækari en ég á þessum degi. Ég þurfti að setja mér ný markmið og fara eins hratt og ég gat,“ segir hann og brosir.
Eftir keppnisgreinarnar í sundi og hjólreiðum var hann ofarlega í keppninni. Hann var í 9. sæti og rétt á eftir fyrstu mönnum í áhugamannakeppninni. „Ef ég hefði náð eðlilegu hlaupi hefði ég verið að berjast um sigurinn,“ segir Rúnar Örn og bendir á að ef hann hefði innbyrt meiri næringu þegar hann var að hjóla hefði hann líklega getað hlaupið af meiri krafti sem hefði skilað honum betri árangri.
Hann setur stefnuna á að komast aftur á heimsmeistaramótið í Járnkarli á næsta ári og „laga það sem klikkaði.“