Menu

Keppnissaga Viðars

Hér að neðan er að finna keppnissögu Viðars frá því í Ironman Kalmar - sem er mjög áhugaverð þar sem hann mun upplifa draum sinn og langþráð markmið þegar hann keppir í heimsmeistarakeppninni í Ironman á Havaí næstkomandi laugardag. 

IRONMAN KALMAR 2014

Sund
Það var rúllandi start. Keppendur voru látnir stilla sér upp í hólf eftir áætluðum sundtíma. Hraðasta var 1:05 og hraðari. Ætlaði að reyna að synda á ca. 54 mín. þar sem ég er búinn að ná nokkrum framförum í sundinu að undanförnu.
Var nánast fremst í startinu en þó fyrir aftan ca. 40 manns. Það var mun meira kraðak í byrjun en ég bjóst við og ekki mikið minna en í hefðbundnu hópstarti. Það höfðu greinilega einhverjir mun hægari sundmenn stillt sér upp of framarlega því ég neyddist til að synda yfir 3 og taka framúr mörgum.
Sundið eftir það var skemmtilegt og mér leið mjög vel allan tímann, náði að drafta svona 70% af tímanum en það voru alltaf þessi hefðbundnu slagsmál við keilurnar. Gaman að synda alveg við bryggjurnar sem voru troðfullar af fólki. Neyddist til að velta mér á bakið einu sinni þar sem hettan var að detta af.
Var orðinn aðeins stífur í hægri öxlinni eftir ca. 3km og breytti þá úr háu recovery í venjulegt sundrecovery sem hjálpaði við að laga það. Var töluvert brugðið þegar ég kom uppúr og sá tímann 58:26 sem er minn hægasti IM tími til þessa. Skýringin á þessu reyndist sennilega vera sú að brautin er of löng og munar þar töluverðu.
Hún er gefin upp 3,86km, var í fyrra 3,96km en þeir breyttu henni í ár. Hún reyndist hjá mér vera 4,1km og lengri hjá mörgum upp í 4,5km hjá þeim synda skrykkjótt en mér hefur alltaf gengið vel að synda beint og sú var raunin nú, þurfti aldrei að rétta mig af og fór alveg að öllum belgjum.
70. sæti í heildina og 9. í aldursflokknum.

T1
Tók pokann minn og fór í skiptitjaldið því það er skylda að fara í gallann þar í þessari keppni. Var hugsi yfir lélegum sundtíma í T1 og aðeins í óstuði í T1 tók því frekar rólega en allt gekk vel setti á mig hjálm, númerabelti og sokka og setti gallann í pokann. Síðan að hjólinu og út. 2:06 sennilega nokkuð fljótur þar en ranking ekki gefið upp.
Hjól
Stillti mig á 260w og hóf strax framúrakstur. þegar að brúnni yfir til Ölands var komið var töluverður vindur í bakið frá vestri svo maður sveif þægilega yfir en spáð hafði verið mjög litlum vindi 2-3m/s. Hélt mjög góðum meðalhraða allt Öland enda með vindinn mest á hlið eða í bakið og var meðalhraðinn 39,9 eftir um 84km. Um þetta leyti beygir brautin til vesturs og er aðeins á fótinn
eða 50m á 9km. Þarna var vindurinn í fangið og hægðist all verulega á ferðinni. Hélt 253w yfir en var á rétt rúmum 30km/h og meðalhraðainn farinn niður í 38,7. Þarna var ég kominn með magaverk og hætti því að borða. Verkurinn var vægur í fyrstu en fór vaxandi. Þagar að brúnni yfir á meginlandið var komið aftur var þar stífur vindur á móti og féll þá meðalhraðinn ennþá nú úr 38,9 í 38,2 og eftir brúna byrjaði ég að missa niður
afl bæði vegna þess að ég var orðinn þreyttur eftir mótvindskaflana og magaverkurinn var farinn að trufla verulega líka af því að ég gat lítið borðað og drukkið, var því hálf ringlaður á þessum tíma. Háls var líka orðinn stífur og setbein aum því brautin býður nánast ekkert upp á tilbreytingu þarna og var ég búinn að vera í aero stöðu í þrjá og hálfan tíma.
Nú tók við mjög breytt svæði með töluverðu af þröngum beygjum og mjóum vegum sem buðu ekki upp á mikinn hraða auk þess sem vindurinn uppeftir hægði verulega á. Aflið var ennþá á niðurleið og meðalhraðinn sömuleiðis. Bjóst ég því við að nú snérist taflið við að ég myndi hætta að taka framúr hjólurum en þeir myndu byrja að fara framúr mér, það gerðist hins vegar ekki. Hafði tekið framúr á að giska 50 af þeim 57 sem ég tók framúr á leiðinni. ekki einn einasti hjólari hafði tekið framúr mér.
Ég tók framúr nokkrum í viðbót og voru það mest allt pro gaurar sem virtust í ennþá verra ástandi en ég, sumir af þeim voru standandi hjólið á flötum köflum. Síðustu 20km var ég alveg einn og sá engan á undan mér eins langt og augað eygði en einhverjir í humátt á eftir. Meðalaflið síðustu 60km voru einungis 212w og missti ég því meðalaflið úr áætluðum 250w niður í 235w. Meðalhraði var 37,7 en brautin var of löng sem nemur ca. 1,4km en hún er gefin upp 180,2km, vissi það svosem fyrirfram. Veit ekki hvað það er með Svía og mælingar á brautum.
Markmið voru 4:40 og var ég mjög bjartsýnn framan af en magaverkurinn gerði það útilokað, er ég auðvitað í skýjunum með 1. sæti í aldursflokki og 13. í heildina eftir sund og hjól.

T2
Það voru ekki nema 13 hjól þegar ég kom á skiptisvæðið og 10 af þeim á Pro rekkanum svo að skiptisvæðið var heldur tómlegt. Fór úr skónum á hjólinu og skilaði því á sinn stað. Greip hlaupapokann, sturtaði út honum og setti hjálminn í hann. Fór í Adidas Energy Boost skóna setti á mig Oakley gleraugun og húfuna og af stað. 1:49 eða ca. 20s lakari en þeir fljótustu.

Hlaup
Ólíkt fyrri járnmönnum mínum tveim leið mér alls ekki vel að byrja að hlaupa, ennþá með í maganum, hálf ringlaður og þungur i fótum. Hef alltaf þurft að halda verulega aftur af mér eftir hjól en nú var þetta ströggl. Það er byrjað að hlaupa í gegnum miðbæinn og þar er gríðarleg stemning og mikið af fólki svo að það hjálpaði aðeins en ég hlakkaði ekki til að hlaupa maraþon svona. Eftir rúman 1km fór mér að líða mun betur og hraðinn jókst. Hitti Guðnýju eftir ca. 5km og hún kallaði á mig að ég væri níundi, liti illa út og hlypi einsog eymingi (hafði beðið hana um neikvæða hvatningu), skildi það þannig að ég væri níundi í aldursflokknum og taldi litlar líkur á að Kona sætið næðist enda hlaupin mín lakasta grein svo ég gerði ráð fyrir að missa nokkra framúr.
Hún átti við að ég væri í 9. sæti í heildina (var reyndar 13.) og var þarna með talsverða forystu í aldursflokknum. Hafði gert ráð fyrir að hlaupa á ca. 4:30 pace í byrjun og halda mig síðan í ca. 4:55 þegar á liði. Þetta gekk að mestu eftir og gat ég farið að borða aðeins,
fyrst gel og vatn en síðan kók eftir 20km. Ætlaði að geyma kókið fram að 30 en fannst ég farinn að slappast eftir 20 og hresstist strax við kókið. Stoppaði ekki á öllum drykkjastöðvum en flestum sérstaklega þegar fór að líða á. Náði að hlaupa þetta nokkuð jafnt og kláraði á 3:30 sem var í samræmi við væntingar. Aðstæður til hlaupa fyrir íslending voru náttúrulega fullkomnar 14-20°C stundum sól, stundum rigning og smá vindur til að kæla. Taldi mig í besta falli getað hlaupið á 3:25-28 og aðstæðurnar buðu upp á það en magaverkurinn og næringarleysið á hjólinu hefur sennilega
ekki hjálpað. 3. sæti í aldursflokki kom verulega skemmtilkega á óvart, vissi að ég væri framarlega og fannst sérlega gaman að vera aleinn í góða stund á bláa dreglinum en trúði vart eigin eyrum þegar þulurinn sagði að ég væri sennilega á palli. Var að vonast eftir 6.-7. sæti í aldursflokknum og mjög ánægður að komast í topp 10. 26. sæti í heildina af tæpum 2400 keppendum kom skemmtilega líka á óvart.
Er alveg á því að svona nokkuð er ekkert sem einn gerir þetta er uppskera vinnu margra og margir hafa hjálpað mér mikið við að ná þessum árangri.
Fyrst er auðvitað að að þakka eiginkonu minni Kolbrúnu og börnum Þórdísi, Elínu og Þorbirni en ég hef auðvitað ekki verið eins mikið til staðar og ég ætti af augljósum ástæðum. Þá móður minni Önnu Maríu fyrir mikla hjálp.

Páll Gestson á gríðarlega mikið í þessu, Einar, Bertel og allir í Þríkó, Óðinn Örn félagi minn, Kalli Pálma og Hákon Jóns sem hafa hjálpað mér með sundið, Hjólamenn, strákarnir í Sporthjólum Jón Oddur og Tyrfingur með Orca, Orbea, Pearl Izumi ,Xbionics ofl., Ívar Trausti, Þráinn og Jenný, Guðbrandur, Gauti Grétars, Adidas, Oakley og fleiri sem hafa gefið góð ráð og hvatningu þar með taldir þeir sem voru hér úti að hvetja hópinn (Guðný, Olga, Snjólaug, Bibba, Óli og Atli) en slíkt skiptir sköpum í svona keppnum.

back to top