Menu

Viðar til Kona á Havaí

Viðar Bragi þjálfarinn okkar er komin til Havaí til að taka þátt í heimsmeistarakeppninni í Járnmanni, sem haldin verður þar í Kona næstkomandi laugardag og hefst keppnin klukkan 17:00 að íslenskum tíma. 

Viðar fékk sæti í heimsmeistarakeppninni þegar hann lauk keppni í 3 sæti í Ironman Kalmar 16. ágúst, en þá bætti hann Íslandsmet í þessari vegalengd. 

Í tilefni af ferð Viðars til Havaí - tók Morgunblaðið eftirfarandi viðtal við hann, sem birtist í Morgunblaðinu 04.10.2014

 

FJÖLSKYLDUFERÐ Á HEIMSMEISTARAMÓTIÐ Í JÁRNKARLI 

Viðar Bragi Þor­steins­son er legg­ur af stað til Havaí á morg­un þar sem hann mun taka þátt í heims­meist­ara­mót­inu í járn­karli. Í keppn­inni þarf að synda 3,8 kíló­metra, hjóla 180,2 km og að lok­um er hlaupið heilt maraþon, rúma 42 km.

Þetta er í fjórða skiptið sem Viðar tek­ur þátt í járn­karls­móti og í þetta sinn nýt­ur hann stuðnings allr­ar fjöl­skyldu sinn­ar. „Ég var bú­inn að lofa þeim því að ef ég næði lág­mark­inu fengju all­ir að fara með, börn­in og mamma líka, það er bara hóp­ferð,“ seg­ir Viðar og bæt­ir við að eins fylgi vin­ur hans hon­um út og frænka hans sem bú­sett er í Banda­ríkj­un­um

Viðar vann sér rétt til þátt­töku í heims­meist­ara­mót­inu í ág­úst þegar hann setti Íslands­met í járn­karli á móti í Kalm­ar í Svíþjóð. Hann seg­ist hafa tekið því ró­lega í viku áður en hann hóf aft­ur æf­ing­ar en þegar mest lét æfði hann í um 22 tíma á viku.

„Það er nú ekki mælt með því sko,“ seg­ir Viðar þegar hann er spurður hvort það sé hollt að keppa með svo stuttu milli­bili. Það er þó ekki á hon­um að finna að hann sé stressaður og seg­ist hann hlakka mikið til.

Ómögu­legt að slá metið á Havaí

Í Svíþjóð var Viðar þriðji í mark í sín­um ald­urs­flokki og 26. sæti í keppn­inni. Þar lauk hann keppn­inni á níu klukku­stund­um, 22 mín­út­um og einni sek­úndu. Viðar ger­ir þó ekki ráð fyr­ir að bæta Íslands­met sitt á Havaí.

„Það er ómögu­legt, þess­ar braut­ir eru mis­jafn­ar og þessi er mjög erfið,“ seg­ir Viðar. „Það er eng­inn galli í sund­inu, það er mik­ill vind­ur á hjól­inu og hiti og raki þarna á hlaup­inu þannig að menn eiga oft í erfiðleik­um með þessa keppni.“

Viðar seg­ir hit­ann ekki vera sinn besta vin enda sé hann van­ur vind­in­um hér heima og að hlaupa í und­ir 10 gráðum. Viðar ger­ir ráð fyr­ir 30 stiga hita og 40% raka og seg­ir mikla hættu á of­hitn­un und­ir slík­um aðstæðum svo mik­il­vægt sé að drekka vel á meðan á keppni stend­ur.

„Þetta er mjög erfið keppni og ég ætla að reyna að klára þetta bara sæmi­lega. Ég er bú­inn að gera mér í hug­ar­lund að ég gæti verið tíu tíma og tíu mín­út­ur,“ seg­ir Viðar og bæt­ir við að ómögu­legt sé að vita hvernig fari að lok­um.

Viðar er ekki eini Íslend­ing­ur­inn sem taka mun þátt í heims­meist­ara­mót­inu því Þuríður Guðmunds­dótt­ir, sem bú­sett er í Banda­ríkj­un­um, náði lág­mark­inu í Kan­ada fyrr á ár­inu.

back to top