Viðar til Kona á Havaí
- font size decrease font size increase font size
Viðar Bragi þjálfarinn okkar er komin til Havaí til að taka þátt í heimsmeistarakeppninni í Járnmanni, sem haldin verður þar í Kona næstkomandi laugardag og hefst keppnin klukkan 17:00 að íslenskum tíma.
Viðar fékk sæti í heimsmeistarakeppninni þegar hann lauk keppni í 3 sæti í Ironman Kalmar 16. ágúst, en þá bætti hann Íslandsmet í þessari vegalengd.
Í tilefni af ferð Viðars til Havaí - tók Morgunblaðið eftirfarandi viðtal við hann, sem birtist í Morgunblaðinu 04.10.2014
FJÖLSKYLDUFERÐ Á HEIMSMEISTARAMÓTIÐ Í JÁRNKARLI
Viðar Bragi Þorsteinsson er leggur af stað til Havaí á morgun þar sem hann mun taka þátt í heimsmeistaramótinu í járnkarli. Í keppninni þarf að synda 3,8 kílómetra, hjóla 180,2 km og að lokum er hlaupið heilt maraþon, rúma 42 km.
Þetta er í fjórða skiptið sem Viðar tekur þátt í járnkarlsmóti og í þetta sinn nýtur hann stuðnings allrar fjölskyldu sinnar. „Ég var búinn að lofa þeim því að ef ég næði lágmarkinu fengju allir að fara með, börnin og mamma líka, það er bara hópferð,“ segir Viðar og bætir við að eins fylgi vinur hans honum út og frænka hans sem búsett er í Bandaríkjunum
Viðar vann sér rétt til þátttöku í heimsmeistaramótinu í ágúst þegar hann setti Íslandsmet í járnkarli á móti í Kalmar í Svíþjóð. Hann segist hafa tekið því rólega í viku áður en hann hóf aftur æfingar en þegar mest lét æfði hann í um 22 tíma á viku.
„Það er nú ekki mælt með því sko,“ segir Viðar þegar hann er spurður hvort það sé hollt að keppa með svo stuttu millibili. Það er þó ekki á honum að finna að hann sé stressaður og segist hann hlakka mikið til.
Ómögulegt að slá metið á Havaí
Í Svíþjóð var Viðar þriðji í mark í sínum aldursflokki og 26. sæti í keppninni. Þar lauk hann keppninni á níu klukkustundum, 22 mínútum og einni sekúndu. Viðar gerir þó ekki ráð fyrir að bæta Íslandsmet sitt á Havaí.
„Það er ómögulegt, þessar brautir eru misjafnar og þessi er mjög erfið,“ segir Viðar. „Það er enginn galli í sundinu, það er mikill vindur á hjólinu og hiti og raki þarna á hlaupinu þannig að menn eiga oft í erfiðleikum með þessa keppni.“
Viðar segir hitann ekki vera sinn besta vin enda sé hann vanur vindinum hér heima og að hlaupa í undir 10 gráðum. Viðar gerir ráð fyrir 30 stiga hita og 40% raka og segir mikla hættu á ofhitnun undir slíkum aðstæðum svo mikilvægt sé að drekka vel á meðan á keppni stendur.
„Þetta er mjög erfið keppni og ég ætla að reyna að klára þetta bara sæmilega. Ég er búinn að gera mér í hugarlund að ég gæti verið tíu tíma og tíu mínútur,“ segir Viðar og bætir við að ómögulegt sé að vita hvernig fari að lokum.
Viðar er ekki eini Íslendingurinn sem taka mun þátt í heimsmeistaramótinu því Þuríður Guðmundsdóttir, sem búsett er í Bandaríkjunum, náði lágmarkinu í Kanada fyrr á árinu.