Heppilegt fyrir alla sem vilja halda sér í góðu formi að æfa þríþraut
- font size decrease font size increase font size
Viðar Bragi Þorsteinsson er vel þekktur inn þríþrautargeirans eftir að hafa komist á heimsmeistarakeppnina í Ironman í Kona síðastliðið haust. Heimildarmyndin Viðar Bragi Ironman #1341 var sýnd á RÚV á milli jóla og nýárs og gerir hún þríþrautaræfingum fyrir svona stóra keppni góð skil. Viðar Bragi er í gullhópi Ironman "Ironman 2015 All World Athlete" sem veitir honum ýmis réttindi. Hann er einnig hjólaþjálfari Þríkó og Hjólamanna og hér að neðan fáum við að kynnast hinni hliðinni á þríþrautarmanninum Viðari Braga.
Fullt nafn: Viðar Bragi Þorsteinsson
Aldur: 41
Heimabær: Bý í Kópavogi síðan 1999 en áður í Reykjavík frá fæðingu
Fjölskylda: Kvæntur Kolbrún í 20 ár. Þrjú börn Þórdís 21 árs, Elín 15 ára, Þorbjörn 5 ára
Hvenær byrjaðir þú að æfa þríþraut? Byrjaði að æfa hlaup reglubundið 2007, sund 2009, hjól 2010. Þannig að það má segja að ég hafi byrjað að æfa þríþraut 2010
Hver er uppáhaldsgreinin og af hverju? Það er stöðugt að breytast fannst td. leiðinlegt að hjóla þegar ég var að byrja en síðustu 4 ár hefur mér fundist skemmtilegast að synda og hjóla. Nú er áhuginn á hlaupum aftur að vaxa enda veitir ekki af þar sem það er mín lang slakasta grein.
Hvað er ómissandi á Þríþrautaræfingum? Garmin úrið mitt 920XT er bara alveg snilld og ég nota það í öllu. Cerveló S5 hjólið er í miklu uppáhaldi. Adidas Adizero Boost hlaupaskórnir. Þetta er það helsta.
Uppáhaldsbúnaður tengdur þríþrautinni? Hef svo gaman af því að vesenast með gögn úr æfingum og keppnum að aflmælarnir mínir eru uppáhalds bæði Garmin Vector og Powertap.
Hvaða þríþraut dreymir þig að taka þátt í? Mig langar í Alpe d´Huez, Wildflower og Escape from Alcatraz. Líka í margar Ironman keppnir td. Frankfurt, New Zealand, Wales, Austria, Boulder ofl. Er samt ekkert viss um að ég fari í fleiri.
Mesta afrekið í þríþrautinni? Að koma fyrstur inn af hjólinu í IM Sweden. Það voru 2350 keppendur.
Hvað æfirðu marga klukkutíma á viku / skipt á greinar? 10-26 klst. Meðalvika 4 sund, 10 hjól, 4 hlaup. Það þarf alls ekki að æfa svo mikið til að keppa í þríþraut.
Áttu þér fyrirmynd í þríþrautinni? Mínar helstu fyrirmyndir í íþróttum eru dætur mínar sem hafa náð góðum árangri, Þórdís í skylmingum og Elín í sundi. Þegar ég var að byrja var auðvitað nærtækast að horfa á þá sem voru á toppnum hér heima sem voru Steinn Jóhannsson og Torben Gregersen ásamt Kareni Axels. Ef við tölum um erlenda íþróttamenn er það auðvitað Mark Allen sem var ótrúlegur og líka Chrissie Wellington.
Hver voru markmið ársins 2014 og hvernig gekk? Stóra markmið ársins var að fara til Kona og það gekk framar vonum. Önnur markmið tengdust hjólreiðum bæði TT og götukeppnum, þau markmið náðust ekki og hjólasumarið 2014 voru vonbrigði hjá mér þar sem aflið var á stöðugri niðurleið eftir frábært sumar 2013. Er í raun hissa á árangrinum í Ironman miðað við þessa staðreynd.
Hver eru markmið ársins 2015? Hugmyndin er að fara maraþon undir 3 tímum í febrúar. Önnur markmið eru bara að ná vopnum sínum á hjólinu og gera góða hluti í götuhjólakeppnum og TT hér heima. Svo alangar mig að taka hálfan IM í Kjósinni í ágúst ef ég fæ leyfi.
Annað? Það er mjög heppilegt fyrir alla sem vilja halda sér í góðu formi að æfa þríþraut. Þó að áhugi á einni grein sé meiri en á hinum og stefnt sé að árangri í td. bara hlaupum er gott að nota hinar greinarnar til að halda líkamanum í betra jafnvægi og koma þannig í veg fyrir meiðsli. Flest okkar sem stundum þetta erum að keppa líka sundmótum, hjólamótum og hlaupum.