Þríþraut er frábær íþrótt þar sem allir geta verið með
- font size decrease font size increase font size
Margrét Valdimarsdóttir byrjaði að æfa þríþraut haustið 2013. Henni finnst hjólið skemmtilegast, er frekar nýbyrjuð að hlaupa en líður best eftir sundið. Hún er skráð í Ironman í Flórída 7.nóvember næstkomandi ásamt fimm öðrum Þríkó konum, sem hafa stundum kallað sig Sexurnar. Margrét segir þríþrautina frábæra íþrótt þar sem allir geta verið með á eigin tempói en svo verði markmiðin æ meira krefjandi. Við óskum Margréti góðs gengis í æfingum fyrir IM Flórída.
Fullt nafn: Margrét Valdimarsdóttir
Aldur: 40 ára
Heimabær: Kópavogur
Fjölskylda: Gift Ormari Gylfasyni Líndal og eigum við Írisi Birtu 9 ára og Egil Orra 6 ára
Hvenær byrjaðir þú að æfa þríþraut? Haustið 2013
Hver er uppáhaldsgreinin og af hverju? Mér finnst hjólið skemmtilegast enn sem komið er allavegana. Það er svo gaman að hjóla út um allar trissur. Er frekar nýbyrjuð að hlaupa og fannst það ekkert sérlega skemmtilegt framan af. Það er aðeins að breytast núna J Mér líður samt alltaf best eftir sundæfingarnar, finnst ég svífa á göngustígnum á leiðinni heim.
Hvað er ómissandi á Þríþrautaræfingum? Garmin úrið (þarf samt að fá mér nýrri týpu sem er vatnsheld), vatn/orkudrykkur(gel á löngum æfingum) og góða skapið.
Uppáhaldsbúnaður tengdur þríþrautinni? Racerinn minn. Keypti hann síðasta vor og er búin að hjóla mikið og keppa síðan.
Hvaða þríþraut dreymir þig að taka þátt í? Ég skráði mig í Ironman Florida næstkomandi nóvember þannig að það er draumurinn í dag.
Mesta afrekið í þríþrautinni? Hmmm, ég hef nú bara tekið þátt í einni þríþraut – Kópavogsþrautinni sl. vor. Mér gekk alveg ágætlega en sá strax að ég þyrfti að efla mig í hlaupunum.
Hvað æfirðu marga klukkutíma á viku/skipt á greinar? Ætli ég hafi ekki verið í kringum 7-8 tímana plús/mínus en er að bæta við mig núna í undirbúningi fyrir IM. Er búin að taka hlaupin sérstaklega fyrir síðan í lok október á kostnað sundsins en er að bæta því inní aftur. Stefnan tekin á 3/6/4 (er samt ekki alveg svo skipulögð að vera með allt planað)
Áttu þér fyrirmynd í þríþrautinni? Já, ég fylgdist svolítið með Karen Axels árið 2010 minnir mig þegar hún var með pistlana á mbl.is og finnst hún frábær. Þar kviknaði áhuginn hjá mér á þessari grein. Gerði nú samt ekkert í því fyrr en ég flutti í Kópavoginn og fann Þríkó.
Svo finnst mér Viðar Bragi líka frábær fyrirmynd J
Hver voru markmið ársins 2014 og hvernig gekk? Markmiðin fyrir 2014 voru nú ekki háleit þar sem ég var nú bara að kynnast þessu öllu saman. Ákvað samt í janúar að keppa í Kópavogsþrautinni í maí, svona til að prófa og var líka ákveðin í að fara heila Jökulmílu í júní. Ég kláraði hvort tveggja og gekk alveg ágætlega. Eftir þríþrautina sá ég að ég þyrfti að æfa hlaupin betur þannig að ég einbeitti mér að hjólinu um sumarið. Keppti í flestum þeim keppnum sem ég komst í og gekk ljómandi vel.
Hver eru markmið ársins 2015? Aðalmarkmið ársins er IM í Florida í nóvember. Annars eru markmiðin að bæta mig í hlaupunum og á hjólinu. Ætla að taka þátt í sem flestum hjólakeppnum í sumar og aldrei að vita nema ég taki ½ IM líka.
Annað? Þríþraut er frábær íþrótt þar sem allir geta verið með. Maður æfir algjörlega á sínu tempói og eftir eigin getu en smitast um leið af félögunum og fer ósjálfrátt að setja sér hærri markmið.